Íslenski boltinn

Ólafur um Eið Smára: Hann er ekki í formi til þess að spila þennan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/AFP
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari karlalandsliðsins, var spurður út í það af hverju hann valdi ekki Eið Smára Guðjohnsen í landsleikinn á móti Andorra en Ólafur tilkynnti 20 manna hóp í dag.

„Ég valdi ekki Eið. Hann er ekki í formi til þess að spila þennan leik," sagði Ólafur.

„Leikmennirnir í Englandi eru flest allir farnir í frí og ég tók stöðuna á þeim og hvernig þeirra mál yrðu og mat það meðal annars út frá því að Eiður yrði ekki í formi til þess að spila þennan leik.

Ólafur sagðist ennfremur hafa átt gott samtal við Eið Smára. „Það var ekkert þar sem kom mér á óvart," sagði Ólafur. „Á þeim tíma sem við spiluðum Kýpurleikinn þá var hann að æfa með Tottenham og hann mætti á allar æfingar þar. Það er ekkert við því að segja," sagði Ólafur.

Ólafur sagðist hafa tilkynnt Eiði Smára það að hann væri ekki í standi til að spila og neitaði því að hann hefði gefið Eið Smára tækifæri til að taka sér í frí frá Andorraleiknum.

Eiður Smári hefur ekki verið með í neinum af þremur landsleikjum ársins og spilaði síðast fyrir íslenska landsliðið í 1-1 jafntefli á móti Lúxemborg 14. nóvember 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×