Handbolti

Gunnar Steinn kominn í úrslitaleikinn um sænska titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Steinn Jónsson.
Gunnar Steinn Jónsson.
Gunnar Steinn Jónsson átti góðan leik þegar Drott tryggði sér sæti í úrslitaleiknum um sænska meistaratitilinn á móti Sävehof eftir 34-27 útisigur á Ystad í oddaleik í undanúrslitunum. Drott vann seinni hálfleikinn með 9 marka mun.

Gunnar skoraði 7 mörk í oddaleiknum og samtals 32 mörk í 5 leikjum einvígisins en enginn leikmaður liðanna skoraði fleiri mörk en íslenski leikstjórnandinn.

Drott byrjaði leikinn samt mjög illa, lenti 1-7 undir og var allan fyrri hálfleik að vinna upp þessa slæmu byrjun. Ystad var 15-13 yfir í hálfleik en Drott skoraði tvö fyrstu mörk seinni hálfleik og tók í kjölfarið frumkvæðið í leiknum.

Drott náði fimm marka forskoti um miðjan hálfleikinn og eftir var sigur liðsins nokkuð öruggur. Gunnar Steinn stjórnaði sóknarleik Drott vel og var mikilvægur í vörninni í stöðu fremsta varnarmanns.

Drott vann undanúrslitaeinvígið 3-2 en það er síðan bara einn úrslitaleikur um sænska meistaratitilinn þar sem Drott og Sävehof mætast í úrslitaleiknum næsta laugardag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×