Körfubolti

Haukar fyrstir til að vinna Þorlákshafnar-Þórsara í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerald Robinson var atkvæðamikill í liði Hauka í kvöld.
Gerald Robinson var atkvæðamikill í liði Hauka í kvöld. Mynd/Vilhelm
Haukar slógu í kvöld lærisveina Benedikts Guðmundssonar í Þór Þorlákshöfn út úr 16 liða úrslitum Powerade-bikars karla með tíu stiga sigri, 84-74 í æsispennandi leik á Ásvöllum. Þetta var fyrsta tap Þórsliðsins á tímabilinu en liðið er búið að vinna sjö fyrstu leiki sína í 1. deild karla.

Gerald Robinson var atkvæðamikill í liði Hauka með 21 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar en Semaj Inge var síðan með 18 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Sveinn Ómar Sveinsson skoraði 13 stig og tók 10 fráköst og Haukur Óskarsson var með 12 stig.

Eric James Palm var langatkvæðamestur í Þórsliðinu með 33 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar en hann fékk sína fimmtu villu þegar rúmar 2 mínútur voru eftir. Vladimir Bulut var með 14 stig og 11 fráköst og Philip Perre skoraði 11 stig.

Þórsarar byrjuðu betur, komust í 6-0, 9-4 og 13-9 en voru aðeins með tveggja stiga forskot, 23-21, eftir fyrsta leikhlutann. Sami munur var á liðunum í hálfleik en Þórsarar voru þá 44-42 yfir. Haukar voru sterkari í þriðja leikhlutanum sem þeir unnu 20-14 og voru því 62-58 fyrir lokaleikhlutann.

Fjórði leikhlutinn var síðan æsispennandi, Haukar voru með naumt frákast framan af en Þórsliðið komst yfir í 72-71 þegar fimm mínútur voru eftir. Þór var 74-73 yfir þegar 3 mínútur voru eftir en Haukar skoruðu ellefu síðustu stig leiksins og tryggðu sér 84-74 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×