Íslenski boltinn

Eggert: Þeir voru arfaslakir síðast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson.
Eggert Gunnþór Jónsson. Mynd/Anton
„Mér fannst þeir vera arfaslakir í síðasta leik og ég trúi ekki öðru en að þeir eigi meira inni," sagði Eggert Gunnþór Jónsson um skoska U-21 landsliðið.

Ísland mætir Skotlandi í Edinborg í kvöld í síðari viðureign liðanna í rimmu þeirra um hvort kemst í úrslitakeppni EM. Ísland vann leikinn, 2-1, en hefði ef til vill átt að vinna stærri sigur.

Eggert þekkir vel til í Skotlandi, þá ekki síst Edinborg, þar sem hann spilar með Hearts. Leikurinn í dag fer fram á Easter Road, heimavelli Hibernian - erkifjenda Hearts.

„Mér líst vel á þetta. Við spiluðum vel síðast og erum með forystu. Það verður þó erfitt að mæta þeim hér úti enda verður mikið af fólki á vellinum og góð stemning. Ég vona að þeir mæti okkur aðeins framar á vellinum en þeir gerðu á fimmtudaginn. Þeir lágu þá aftarlega og leyfðu okkur að vera með boltann. Ég held að þeir muni pressa meira á okkur enda þurfa þeir að sækja. En það mun einnig gera það að verkum að þeir opna svæði í sinni vörn sem við getum nýtt okkur."

„En þeir hljóta að eiga meira inni. Þeir voru ekki að sýna neitt sérstakt síðast og yfirspiluðum við þá nánast allan leikinn. Þeir komust í nokkrar skyndisóknir en meira var það ekki. Þeir hljóta að taka sig saman í andlitinu og koma með eitthvað betra."

Hann segir að íslenska liðið sé með sterkari leikmenn en að það eitt og sér dugi ekki til í kvöld.

„Þeir munu berjast fyrir sínu og við þurfum að hafa mikið fyrir því ætlum við okkur að komast áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×