Íslenski boltinn

Gylfi og Hólmfríður eru knattspyrnufólk ársins

Elvar Geir Magnússon skrifar

Gylfi Sigurðsson og Hólmfríður Magnúsdóttir eru knattspyrnufólk ársins að mati Knattspyrnusambands Íslands. Þetta er í sjöunda sinn sem KSÍ útnefnir sérstaklega knattspyrnumann og -konu ársins.

Gylfi hefur átt frábært ár. Hann lék sína fyrstu A-landsleiki á árinu og fór á kostum með U21-landsliðinu sem náði því magnaða afreki að komast í lokakeppni Evrópumótsins. Hann átti frábært tímabil með Reading á Englandi þar sem hann var kjörinn leikmaður tímabilsins og var síðan seldur til Hoffenheim í Þýskalandi þar sem hann hefur vakið mikla athygli.

Alfreð Finnbogason var í öðru sæti í karlaflokki en hann var í lykilhlutverki með Breiðabliki sem varð Íslandsmeistari og var síðan seldur til Lokeren í Belgíu. Í þriðja sæti varð Grétar Rafn Steinsson, leikmaður Bolton.

Hólmfríður Magnúsdóttir í landsleik.

Hólmfríður lék stórt hlutverk með Philadelphia Independence í bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu en liðið komst í úrslitaleik deildarinnar. Þá var hún í lykilhlutverki hjá kvennalandsliðinu. Hún lék níu landsleiki á árinu og skoraði í þeim sjö mörk. Hún er nú orðin þriðja markahæsta landsliðskonan frá upphafi.

Markvörðurinn Þóra B. Helgadóttir varð í öðru sæti í kvennaflokki en hún varð sænskur meistari með Malmö. Dóra María Lárusdóttir, lykilleikmaður Vals, hafnaði í þriðja sæti en Valur varð Íslands- og bikarmeistari á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×