Handbolti

Júlíus: Við erum ósmeyk við Evrópumeistaramótið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari.
Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari.
Júlíus Jónasson var ánægður með hvernig leikmenn íslenska landsliðsins brugðust við slæmu tapi fyrir Noregi á æfingamótinu þar í landi nú um helgina.

Ísland tapaði fyrir Norðmönnum með 21 marks mun í fyrsta leiknum á föstudaginn, 35-14. En þó svo að hinir leikirnir, gegn Dönum og Serbum, hafi einnig tapast var allt annað að sjá til íslenska liðsins.

„Ég er þokkalega ánægður með helgina. Fyrsti leikurinn var bara slys og alger aumingjaskapur," sagði Júlíus við Vísi í dag. „Við vorum vissulega að spila við eitt af þremur sterkustu landsliðum heims og það á þeirra heimavelli en samt sem áður spilaði mitt lið alveg ömurlega illa."

„En upp frá því hefur verið góður stígandi í liðinu. Við hentum leiknum gegn Dönum frá okkur á 7-8 mínútum í síðari hálfleik og við vorum svo að elta Serbana í allan leikinn í dag. En við áttum frábæran 20 mínútna kafla í síðari hálfleik og stimplum okkur vel inn í leikinn. Það var allt í járnum og við hefðum auðveldlega getað fengið meira úr þeim leik."

„Það var frábært að helgin skuli hafa endað á ágætum nótum. Við vorum búnar að fara vel yfir Noregsleikinn og hvað fór úrskeðis í honum. Leikmenn tóku bæði eigin gagnrýni sem og gagnrýni okkar þjálfaranna vel og voru mun betri í leiknum gegn Dönum í gær. Við ákváðum að byggja á því og það gerðum við gegn Serbum í dag."

Þorgerður Anna Atladóttir tekur skot að marki í leiknum gegn Noregi.Nordic Photos / AFP
Júlíus var með nítján leikmenn með sér í Noregi og þarf nú að skera hópinn niður um þrjá leikmenn fyrir Evrópumeistaramótið sem hefst í Noregi og Danmörku í næsta mánuði.

„Flestir fengu að spila gegn Dönum og ég er ánægður með hvernig gekk að rúlla liðinu. Okkur tókst að gera það án þess að veikja liðið sem var mjög jákvætt," sagði Júlíus.

„Við höfum hagað okkar varnarleik þannig að við fáum sem flest hraðaupphlaup. Við höfum verið að prófa okkur áfram með ýmsar útgáfur af honum. Í dag byrjuðum við framar en við höfum gert en bökkuðum svo í 6-0 vörn sem hefur verið mjög góð í þessum síðustu tveimur leikjum okkar."

„Markvarslan í fyrsta leiknum var ekki góð frekar en frammistaða annarra leikmanna. En hún var betri í hinum leikjunum og var Berglind [Íris Hansdóttir] mjög góð í fyrri hálfleik í dag."

Framundan er einn æfingaleikur til viðbótar áður en átökin hefjast í Árósum í þarnæstu viku. Það verður gegn Spánverjum í Álaborg skömmu áður en mótið hefst.

Rakel Dögg Bragadóttir og hin norska Ann Grete Noergaard í leiknum á föstudaginn.Nordic Photos / AFP
Júlíus segir að æfingamótið um helgina hafi ekki dregið kjarkinn úr liðinu. „Það tekur það enginn af þessum stelpum að þær hafa unnið sér það inn að fara á EM. Við vitum þó að þetta verður mjög erfitt en það tekur enginn af okkur að við eigum fullt erindi á þetta mót."

„Við erum ekki smeyk. Enda værum við í mjög slæmum málum ef svo væri. Ég er sannfærður um að við getum náð góðum úrslitum og sjálfsagt væri annað hljóð í okkur ef allir leikirnir hefðu farið eins og sá fyrstu um helgina. En ég er ánægður með hvernig liðið kom til baka. Leikmenn spiluðu betur - bæði persónulega og sem lið. Það er jákvætt og hjálpar sálartetrinu líka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×