Körfubolti

Ólafur þegar farinn að láta til sín taka - breytingar á Evrópukeppni karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Rafnsson, nýr formaður FIBA Europe.
Ólafur Rafnsson, nýr formaður FIBA Europe. Mynd/Heimasíða FIBA Europe

Ólafur Rafnsson, nýr formaður FIBA Europe, stjórnaði sínum fyrsta stjórnarfundi um helgina og þar voru samþykktar breytingar á keppnisfyrirkomulagi A-landsliða karla í Evrópukeppninni.

Íslendingar eignuðust líka tvo nýja fulltrúa í nefndum FIBA Europe, Hannes S.Jónsson formaður KKÍ var skipaður í fjárhagsnefnd FIBA Europe og Guðbjörg Norðfjörð varaformaður KKÍ er í unglinganefnd FIBA Europe.

Á heimasíðu KKÍ er farið yfir niðurstöðu þessa fyrsta stjórnarfundar og það má segja að Ólafur Rafnsson hafi látið til sín taka strax á fyrsta fundi en þessi breyting á keppnisfyrirkomulaginu er eitt af þeim málefnum sem fulltrúar Íslands hafa unnið að á vettvangi FIBA Europe undanfarin ár.

„Stjórnin ákvað á fundinum að gera breytingar á keppnisfyrirkomulagi A-landsliðs karla en mikil umræða hefur verið um þetta keppnisfyrirkomulag undanfarin ár.

Ákveðið var að fjölga liðum sem taka þátt í úrslitum EM úr 16 þjóðum í 24 og samhliða því að leggja niður A og B deildirnar. Undankeppnin fyrir úrslit EM verður því með svipuðu sniði og t.d. hjá knattspyrnunni þar sem styrkleikaröðuð riðlakeppni er spiluð. Þannig er að mörgu leyti flóknu kerfi sem keppt hefur eftir undanfarin ár lagt niður," segir í frétt á heimasíðu KKÍ.

Á heimasíðu KKÍ er líka nánar farið yfir hvernig þessar breytingar munu ganga í gegn:

„Fyrsta úrslitakeppni EM þar sem verða 24 þjóðir fer fram árið 2013 en næsta úrslitakeppni EM fer fram árið 2011 í Litháen og því í síðasta sinn þá sem einugis verða 16 þjóðir. Nýja keppnisfyrirkomulagið verður því tekið í notkun árið 2012 þegar fyrstu leikirnir verða spilaðir í riðlakeppninni.

Mótanefnd FIBA Europe er falið að koma með hugmyndir á næstu mánuðum að frekari útfærslu, t.d. hvort keppnin fari fram í 3-4 "gluggum" yfir árið eða hvort allir leikir verði spilaðir í ágúst mánuði eins og verið hefur hjá A-landsliðunum, hversu margir riðlar verða og hversu mörg sæti í hverjum riðili gefi þáttökurétt í úrslitum EM."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×