Íslenski boltinn

Rúrik klár í slaginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar
Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason. Mynd/Stefán
Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 landsliðs karla, segir að Rúrik Gíslason sé klár í slaginn og geti spilað með liðinu gegn Skotum á morgun.

Þetta staðfesti hann í samtali við Vísi á hóteli liðsins í Edinborg í kvöld. Fyrr í kvöld æfði íslenska liðið á Easter Road, heimavelli skoska úrvalsdeildarliðsins Hibernian.

„Undirbúningur hefur gengið vel og er allt eins og best verður á kosið," sagði Eyjólfur. „Það eru allir klárir í slaginn, Rúrik líka. Menn eru ef til vill eilítið stífir en það er eðlilegt miðað við að hafa spilað tvo leiki á einni viku."

Þeir Hólmar Örn Eyjólfsson og Skúli Jón Friðgeirsson verða í leikbanni á morgun og fóru því ekki með til Skotlands. Né heldur markvörðurinn Haraldur Björnsson, sem meiddist í upphitun fyrir leikinn á Laugardalsvelli á fimmtudaginn.

Nánar verður rætt við Eyjólf í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×