Körfubolti

Pavel: Hefði kvittað undir að gera mig að fífli inn á vellinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pavel með verðlaunin sem hann hlaut fyrir að vera valinn maður leiksins.
Pavel með verðlaunin sem hann hlaut fyrir að vera valinn maður leiksins. Mynd/Daníel
Pavel Ermolinskij átti enn eina stórleikinn með KR þegar að liðið varð bikarmeistari eftir sigur á Grindavík í úrslitum Powerade-bikarsins, 94-72.

„Þetta er minn fyrsti stóri titill á ferlinum og menn hafa oft talað um hvað svona tilfinning er ólýsanleg og allt það. Ég hélt að það væri bara gömul klisja en þetta er bara tilfellið,“ sagði Pavel eftir leikinn.

„Þetta er líka ákveðinn léttir - að geta mætt hingað og unnið. Ég var mjög stressaður fyrir leikinn og í morgun eyddi ég öllum mínum tíma í að ímynda mér hvernig við myndum fagna titlinum og upplifa þessa sigurtilfinningu. Maður ímyndar sér aldrei að tapa.“

„Ég er viss um að Grindvíkingar voru að ímynda sér það sama og annað liðið fékk sjokk þegar það tapaði. Ég er bara ánægður með að það var ekki okkar lið.“

Pavel var valinn maður leiksins en hann skilaði frábærum tölum og náði þrefaldri tvennu - 21 stigi, ellefu fráköstum og ellefu stoðsendingum.

„Ég hefði fyrirfram kvittað undir það að gera mig að fífli inn á vellinum með skammarlegri frammistöðu - núll stigum og fjórtán töpuðum boltum. Ef að titillinn kemur í hús þá skiptir annað engu máli.“

„Það er alltaf gaman að spila vel en ef það er einhvern tímann leikur þar sem maður hugsar ekki um sjálfan sig þá er það þessi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×