Handbolti

Nielsen vill gera lífstíðarsamning við Mikkel Hansen

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Mikkel Hansen gæti skrifaði undir "lífstíðarsamning“ við AG
Mikkel Hansen gæti skrifaði undir "lífstíðarsamning“ við AG Nordic Photos / Getty
Jesper Nielsen eigandi danska handboltaliðsins AG í Kaupmannahöfn er vinsæll á meðal blaða – og fréttamanna enda talar hann yfirleitt í fyrirsögnum. Nielsen, sem á einnig þýska stórliðið Rhein- Neckar Löwen, segir í viðtali við BT í Danmörku að stórskyttan Mikkel Hansen gæti skrifaði undir „lífstíðarsamning" við AG en Hansen er einn allra besti leikmaður heims.

Hansen var í aðalhlutverki hjá danska landsliðinu sem lék til úrslita gegn Frökkum á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð í janúar – og hann hefur farið á kostum með AG í vetur. Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason eru liðsfélagar Mikkelson hjá AG.

Samningur Hansen rennur út sumarið 2013 og „Kasi-Jesper" segir að mörg erlend lið hafi sýnt honum áhuga.

„Ég tel að það séu líkur á því að hann verði hjá AG það sem eftir er ferilsins," sagði Jesper í viðtalinu við BT en Hansen er ekki nema 24 ára gamall. „Við ætlum að byggja liðið í kringum hann. Hann getur borið þetta lið á herðum sér og ég mun ekki hika við að bjóða honum 10 ára samning," bætti Jesper við en hann ætlar sér að gera AG að stórveldi í handboltanum.

„Við ætlum að vera með bestu leikmenn heims í öllum stöðum – og ef þeir eru danskir þá er það fullkomið," sagði Jesper.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×