Handbolti

Þjóðverjar sáttir við einn sigur gegn Íslandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr leik Íslands og Þýskalands á HM. Mydn/Valli
Úr leik Íslands og Þýskalands á HM. Mydn/Valli
Varaforseti þýska handknattleikssambandsins, Horst Bredemaier, segist vera sáttur ef þýska landsliðið vinnur annan leikinn gegn Íslendingum en liðin mætast í tvígang á næstu dögum.

Fyrst hér á Íslandi á miðvikudag og svo ytra næsta sunnudag en leikirnir eru liður í undankeppni EM.

"Ég væri mjög sáttur við sigur í öðrum leiknum. Bæði lið vinna sína heimaleiki," sagði Bredemaier.

Einn sigur myndi gagnast þýska liðinu vel. Sigur á Austurríki í kjölfarið myndi tryggja liðið inn á EM. Strákarnir okkar þurfa að sama skapi helst að vinna báða leikina.

Þjóðverjar eru enn í sárum eftir lélegt gengi á HM þar sem liðið hafnaði í ellefta sæti. Liðinu tókst þó að leggja Ísland af velli á mótinu og það gefur Þjóðverjum sjálfstraust fyrir komandi leiki en sigurinn í Svíþjóð var eini sigur Þjóðverja í síðustu átta leikjum gegn Íslandi.

"Við verðum að vinna annan leikinn. Það er alveg klárt. Þá erum við í fínni stöðu," sagði Bredemaier en Þjóðverjar dreyma enn um að komast á ÓL í London en þá þarf liðið að vinna EM í upphafi næsta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×