Íslenski boltinn

Spjaldaglaðasti dómari HM-sögunnar fyrirlesari hjá íslenskum dómurum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valentin Ivanov gefur hér Khalid Boulahrouz  rautt spjald í leiknum.
Valentin Ivanov gefur hér Khalid Boulahrouz rautt spjald í leiknum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Um helgina fer fram árleg landsdómararáðstefna sem er hluti af undirbúningi dómara fyrir komandi keppnistímabil í fótboltanum. Dómarar hafa verið við æfingar frá því 1. nóvember undir stjórn Egils Eiðssonar en auk þess hafa kennarar og nemendur úr Háskólanum í Reykjavík komið að undirbúningnum með einum eða öðrum hætti. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Að þessu sinni fer landsdómararáðstefnan fram í Reykjavík og Úthlíð í Biskupstungum. Sérstakur gestafyrirlesari á ráðstefnunni að þessu sinni er Rússinn Valentin Ivanov, fyrrum dómari og núverandi dómaraleiðbeinandi hjá UEFA.

Ivanov mun meðal annars sjá um verklegar æfingar fyrir aðstoðardómara, fara yfir dómgæslu á HM frá í fyrra og mun halda fyrirlestur um "Leikstjórn" (Match Management).

Dómararnir munu einnig gangast undir skriflegt próf sem og að dómararnir sjálfir munu halda erindi á ráðstefnunni.

Valentin Ivanov er sá dómari sem hefur gefið flest gul og rauð spjöld í einum leik í úrslitakeppni HM. Hann gaf sextán gul spjöld og fjögur rauð spjöld í 1-0 sigri Portúgal á Hollandi í 16 liða úrslitum á HM í Þýskalandi 2006.

Portúgalarnir Costinha og Deco sem og Hollendingarnir Khalid Boulahrouz og Giovanni Van Bronckhorst fengu allir tvö gul spjöld í leiknum og þar með rautt spjald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×