Handbolti

Patrekur: Kem heim af fjölskylduástæðum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson sagði í morgun starfi sínu lausu sem þjálfari þýska B-deildarliðsins Emsdetten. Hann mun koma heim til Íslands í sumar.

"Það er kannski sniðugt að segja upp áður en maður verður rekinn," sagði Patrekur léttur við Vísi í dag en starf hans var nú ekki í mikilli hættu og hann tekur þessa ákvörðun á eigin forsendum.

"Þetta hefur legið lengi í loftinu og ákvörðunin er tekin af fjölskylduástæðum. Eldri strákurinn minn fór heim um áramótin og svo bíður mín góð vinna á Íslandi sem ég vil ekki fórna fyrir 2. deildarlið í Þýskalandi. Þetta er þess utan ekki öruggasta starf í heimi og hlutirnir fljótir að breytast."

Patrekur segir að sér hafi staðið til boða að vera áfram hjá félaginu en hann sá ekki framtíð þar.

"Þá hefði maður þurft að færa sig aftur um set og ég var ekki tilbúinn til þess að vera á sífelldum þeytingi með fjölskylduna," sagði Patrekur.

Hann þjálfaði síðast Stjörnuna hér heima og er opinn fyrir því að þjálfa aftur hér heima.

"Ég er með handboltann í blóðinu og verð örugglega viðloðinn handboltann heima. Ég er ekkert farinn að spá í næstu skrefum því tengdu og við sjáum bara hvað gerist," sagði Patrekur sem sér þó ekki eftir því að hafa farið út.

"Ég hefði alls ekki viljað missa af þessu og hefði eflaust pirrað mig á því ef ég hefði ekki stokkið í slaginn. Þetta var mikill skóli og ég kem reynslunni ríkari heim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×