Fótbolti

Tap í fimm marka leik í Úkraínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán
Íslenska U-21 landsliðið tapaði fyrir jafnöldrum sínum frá Úkraínu í vináttulandsleik ytra í kvöld, 3-2. Aron Jóhannsson og Björn Bergmann Sigurðarson skoruðu mörk Íslands.

Marga leikmenn vantar í U-21 landslið Íslands þar sem að tíu leikmenn sem eru gjaldgengir í liðið voru valdir í A-landsliðið sem mætir Kýpur í undankeppni EM 2012 um helgina.

Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir Úkraínu en heimamenn bættu við þriðja markinu þegar tíu mínútur voru liðnar af síðara hálfleik.

Nítján mínútum fyrir leikslok var vítaspyrna dæmd á heimamenn þegar að Eyjamaðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson var togaður niður í teignum í kjölfar hornspyrnu íslenska liðsins. Aron Jóhannesson, leikmaður AGF í Danmörku, skoraði úr vítinu í sínum fyrsta U-21 landsleik.

Björn Bergmann Sigurðarson, leikmaður Lilleström í Noregi, skoraði svo annað mark Íslands aðeins þremur mínútum síðar. En þar við sat og niðurstaðan 3-2 sigur Úkraínu.

Bæði lið keppa í úrslitakeppni EM í Danmörku í sumar en eru þó ekki saman í riðli. Ísland mætir næst Englandi í æfingaleik ytra á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×