Handbolti

Jesper Nielsen: Ólafur, Guðjón Valur og Róbert allir á leiðinni til AG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
Jesper Nielsen, eigandi AG Kaupmannahafnar, hefur mikla trú á íslenskum handboltamönnum. Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason spila með liðinu í dag og í morgun lýsti Jesper því yfir í dönskum fjölmiðlum að hann ætli að bæta þremur íslenskum landsliðsmönnum við danska liðið fyrir næsta tímabil.

Nielsen segir að fimm heimsklassaleikmenn séu á leiðinni til AG. Hann hafði áður tilkynnt um að Ólafur Stefánsson mun spila hjá liðinu á næsta tímabili en nú segir hann að Guðjón Valur Sigurðsson og Róbert Gunnarsson komi líka til AG frá Rhein Neckar Löwen.

Auk þeirra ætlar Nielsen að fá pólsku skytturnar Krzysztof Lijewski og Karol Bielecki til AG. Krzysztof Lijewski hefur spilað með Hamburg en var búinn að gera samning við Rhein-Neckar Löwen frá og með næsta tímabili.

Á þessu sést að Jesper Nielsen ætlar að færa hálft Rhein-Neckar Löwen liðið yfir í AG en þar er stefna hans að gera danska liðið að Evrópumeisturum á næsta tímabili.

„Við erum að fara í gang með það viltasta í sögu dansk handboltans. Nikola Karabatic er ekki á leiðionni en ef okkur tekst að setja saman þetta lið þá getum við unnið Meistaradeildina. Þá verðum við með tvo heimsklassaleikmenn í hverri stöðu og stöndum þá jafnfætis liðum eins og Kiel og Hamburg," sagði Jesper Nielsen við Politiken.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×