Handbolti

AG slapp með skrekkinn í fyrsta leik úrslitakeppninnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson skoraði 3 mörk.
Snorri Steinn Guðjónsson skoraði 3 mörk. Mynd/Ole Nielsen
Mikkel Hansen og Steinar Ege voru mennirnir á bak við nauman 27-25 sigur AG Kaupmannahöfn á Team Tvis Holstebro í kvöld í fyrsta leik í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Ege varði víti á lokasekúndunum áður en Hansen tryggði liðinu sigurinn með lokamarki leiksins.

AG-liðið er enn taplaust á tímabilinu en liðið fékk 50 af 52 mögulegum stigum út úr 26 leikjum liðsins í deildarkeppninni. AG fékk 14 stigum meira en næsta lið sem var Skjern.

Snorri Steinn Guðjónsson skoraði 3 mörk fyrir AG í kvöld og Arnór Atlason var með 2 mörk. Mikkel Hansen var markahæstur með átta mörk og Niclas Ekberg skoraði sex mörk.

Staðan var 14-14 í hálfleik en Norðmaðurinn Steinar Ege kom inn í mark AG-liðsins í seinni hálfleiknum og stóð sig frábærlega.

Úrslitakeppni dönsku deildarinnar er riðlakeppni þar sem átta efstu liðunum er skipt niður í tvo riðla. AG vann deildarmeistaratitilinn en Team Tvis Holstebro var áttunda og síðasta liðið inn í úrslitakeppnina. Hin liðin í riðlinum eru lið AaB Håndbold og Nordsjælland Håndbold.

AG mætir næst AaB Håndbold á heimavelli á laugardaginn en alls leika liðin sex leiki í riðlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×