Handbolti

Arnór: Algjör draumur að lyfta bikarnum á Parken

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór lyftir hér bikarnum undir kampavínsregni.
Arnór lyftir hér bikarnum undir kampavínsregni.
"Ég brosi bara hringinn. Þetta er búinn að vera geggjaður dagur. Ég held ég eigi aldrei eftir að upplifa það aftur að spila handbolta fyrir framan 36 þúsund manns," sagði afar kátur fyrirliði AGK, Arnór Atlason, í samtali við Vísi.

"Það var eins gott að við unnum þetta og það með stæl. Níu marka sigur segir ansi margt og undirstrikar að við erum bestir," sagði Arnór sem fékk það öfundsverða hlutverk að lyfta bikarnum í heimsmetsleiknum.

"Það var helvíti gaman. Ég er mikill stuðningsmaður FCK ó fótboltanum og hef farið á Parken að sjá þá lyfta titlum fyrir framan fullt hús. Ég hef alltaf öfundað þá af því og það var því draumur að fá að lyfta bikarnum á þessum stað núna. Þetta gleymist aldrei."

Arnór lék virkilega vel í dag, var markahæstur með 5 mörk þó svo mörg skot hefðu farið forgörðum framan af. Hann gaf óteljandi stoðsendingar og skoraði fín mörk.

"Það er ánægjulegt að fá traustið frá þjálfaranum. Ég var í því að skjóta Landin í stuð framan af en hélt traustinu og vann mig inn í leikinn. Þegar upp er staðið er ég mjög sáttur," sagði Arnór en AGK tapaði aðeins einum leik í allan vetur.

"Þó svo við séum með gott lið var þetta ekki auðveldur vetur. Við erum með algjörlega nýtt lið og pressan er gríðarleg á árangur. Þetta hefur gengið upp en var alls ekki auðvelt," sagði Arnór og var rokinn í að fagna með félögum sínum en gleðin á eflaust eftir að vera við völd langt fram á nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×