Handbolti

Gaupi: Þetta var súrrealískt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stemningin var engu lik á Parken.
Stemningin var engu lik á Parken.
Íþróttafréttamaðurinn Guðjón "Gaupi" Guðmundsson var á meðal 36.211 áhorfenda á Parken í Kaupmannahöfn í dag þegar AGK tryggði sér danska meistaratitilinn í handbolta. Hann var þar mættur til þess að fylgjast með syni sínum, Snorra Steini, sem átti flotta innkomu í meistaraliðið í dag.

"Þetta var súrrealískt. Ég hef hreinlega ekki séð annað eins og hef ég nú séð margt á löngum ferli," sagði Guðjón við Vísi eftir leikinn.

Heimsmet í áhorfi á handbolta féll á leiknum en gamla metið var frá 1996 er 35 þúsund manns sáu handboltaleik á Ólympíuleikunum í Atlanta. Svipað margir sáu leik í Afríkukeppninni í Egyptalandi fyrir nokkru síðan. Metið í leik félagsliða var aftur á móti 31 þúsund en það var sett árið 2004 er Lemgo og Kiel spiluðu í Schalke.

"Þetta var alveg með ólíkindum og gaman að fá að upplifa þetta. Það var stemning út um allt og síðan gaman í hálfleik er Jesper Nielsen kynnti Guðjón Val og Óla Stefáns sem nýja leikmenn félagsins," sagði Guðjón.

Jesper Nielsen, eigandi AGK, er ábyrgur fyrir þessu flotta heimsmeti en hann hefur lyft grettistaki fyrir handboltann í Danmörku í vetur og lyft honum á hærrri stall en áður.

"Hann er magnaður og það gengur allt upp hjá honum. Svo var áhugavert að sjá hann gagnrýna leikstíl liðsins í blöðunum í gær sem danskir blaðamenn túlka sem svo að hann ætli að skipta um þjálfara. Það er áhugavert," sagði Guðjón sem ætlaði að kíkja á sigurhátið AGK í kvöld sem fram fer í íþróttahöllinni í Glostrup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×