Handbolti

Handboltasérfræðingur Dana: Danir öryggir í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danir gátu fagnað drættinum í dag.
Danir gátu fagnað drættinum í dag. Mynd/AFP
Bent Nyegaard, fyrrum þjálfari ÍR og Fram og helsti handboltasérfræðingur Dana segir að danska landsliðið hafi haft heppnina með sér þegar dregið var í riðla á EM í Serbíu í dag. Danir lentu í riðli með Serbum, Slóvökum og Pólverjum og sleppa við Frakka, Spánverja og Króata í milliriðlinum.

„Að mínu mati eiga Danir öruggt sæti í undanúrslitunum," sagði Bent Nyegaard í viðtali á heimasíðu TV2 en íslenska landsliðið þarf hinsvegar að glíma við Króata í riðlinum og svo bíða bæði Frakkar og Spánverjar í milliriðlinum.

„Þú getur verið heppinn í svona drætti, svo getur þú líka verið mjög heppinn og stundum ertu ótrúlega heppinn og svo er raunin að þessu sinni," sagði Nyegaard,

„Ulrik Wilbek hefur oft haft heppnina með sér þegar dregið hefur verið í riðla og það breyttist ekki núna. Hann hlýtur að vera sérstaklega ánægður með þennan drátt," sagði Nyegaard.

„Pólverjar voru slakasta liðið í efsta styrkleikaflokknum og það þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af Slóvakíu. Leikurinn við Serba verður erfiðastur en Serbarnir munu ekki vinna danska liðið," sagði Nyegaard.

Það má búast við því að Danir mæti síðan Þjóðverjum, Svíum og Tékkum í milliriðlinum og Nyegaard er þess fullviss að danska liðið eigi öruggt sæti í undanúrslitunum á EM í Serbíu.

Riðlarnir á EM í Serbíu 2012A-riðill (Belgrad)

Pólland

Danmörk

Serbía

Slóvakía

B-riðill (Nis)

Þýskaland

Svíþjóð

Tékkland

Makedónía

C-riðill (Novi Sad)

Frakkland

Ungverjaland

Spánn

Rússland

D-riðill (Vrsac)

Króatía

Noregur

Ísland

Slóvenía




Fleiri fréttir

Sjá meira


×