Handbolti

Aron: Áhorfendur skipta miklu máli fyrir okkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Pálmarsson leikstjórnandi og stórskytta íslenska landsliðsins í handbolta vonast eftir góðum stuðningi frá áhorfendum gegn Austurríki í Laugardalshöllinni á morgun. Aðeins sigur tryggir íslenska liðinu farseðil á EM í Serbíu í janúar á næsta ári.

„Þetta er topp þjóð og síðustu þrír leikir hafa verið hörku leikir. Ég er kominn tilbaka, æfði af krafti í morgun og ég er bjartsýnn fyrir sunnudaginn.“

Aron var ekki með í sigurleik Íslands í Lettlandi fyrr í vikunni vegna meiðsla. Hann segist vera í handbolta til þess að spila úrslitaleiki sem þennan.

„Já þetta er það en þetta eru líka skemmtilegustu leikirnir. Til þess er maður í þessu. Að spila þessa úrslitaleiki, sérstaklega í höllinni. Ef við náum að fylla höllina og fá góða stemmningu þá hef ég góða trú á þessu.“

Áhorfendur hafa mikið að segja í leikjum sem þessum að sögn Arons.

„Þeir gera það, algjörlega. Ef maður horfir upp í pall og sér nokkur laus sæti verður maður pínu svekktur. En þegar maður sér fulla höll fyllist maður þjóðarstolti.“

Landsleikur Íslands og Austurríkis fer fram í Laugardalshöll á morgun klukkan 16:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×