Íslenski boltinn

Fjölnismenn aftur á sigurbraut eftir stórsigur á KA fyrir norðan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KA-mönnum líður greinilega ekkert alltof vel á Þórsvellinum því þeir steinlágu 1-4 á "heimavelli" á móti Fjölni í 6. umferð 1. deildar karla í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Fjölnismanna síðan í 2. umferð en þeir komust upp í 3. sætið með því að krækja í þessi þrjú stig.

Viðar Guðjónsson, Illugi Þór Gunnarsson (víti) og Kristinn Freyr Sigurðsson komu Fjölni í 3-0 eftir aðeins 36 mínútur og þannig var staðan í hálfleik. Illugi Þór skoraði síðan úr annarri vítaspyrnu í seinni hálfleik en KA-maðurinn Sigurjón Fannar Sigurðsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir brotið. KA tókst engu að síður að minnka muninn manni færri þegar Guðmundur Óli Steingrímsson skoraði undir lok leiksins.

Fjölnir vann tvo fyrstu tvo leiki sína en hafði síðan aðeins náð í eitt stig út úr síðustu þremur leikjum sínum. Bæði liðin áttu það sameiginlegt að hafa gengið illa að landa sigrum í síðustu leikjum.

KA-liðið náði í sjö stig í fyrstu þremur leikjum sínum en hefur síðan tapað þremur leikjum í röð með markatölunni 1-7. KA varð að spila þennan leik á Þórsvellinum þar sem að heimavöllur liðsins á Dalsbrautinni er mjög illa farinn.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af vefsíðunni fótbolti.net.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×