Handbolti

Einar Ingi samdi við Mors Thy

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Einar Ingi í leik með HK.
Einar Ingi í leik með HK.
Línumaðurinn Einar Ingi Hrafnsson leikur í Danmörku næsta vetur en hann er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við úrvalsdeildarliðið Mors Thy. Hann kemur til liðsins frá þýska liðinu Nordhorn.

"Mér líst bara vel á þetta. Þeir lögðu gríðarlega mikla áherslu á að fá mig sem var jákvætt," sagði Einar Ingi við Vísi en hann segist ekki hafa heyrt neitt nema gott um danska boltann.

"Það er líklega ekki alveg sami kraftaboltinn og ég var að spila í Þýskalandi. Þarna er leikinn meiri handbolti og mikill hraði."

Einar Ingi sagðist vera mjög sáttur við samninginn sem hann fékk hjá félaginu. "Hann er mun betri en sá sem ég var með í Þýskalandi þannig að ég get ekki kvartað."

Unnusta Einars Inga er landsliðskonan Þórey Rósa Stefánsdóttir og hún mun væntanlega leika með dönsku félagi í næsta nágrenni.

"Hún mun líklega spila með Holstebro. Það er í rúmlega 40 mínútna fjarlægð þannig að þetta gengur allt upp hjá okkur," sagði Einar Ingi sáttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×