Körfubolti

Peter Öqvist: Viljum nýta hraðann og fjölhæfnina í liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Öqvist, landsliðsþjálfari karla í körfubolta, tilkynnti í dag tólf manna hóp sinn fyrir komandi Norðurlandamót sem fer fram í Sundsvall í Svíþjóð og hefst um næstu helgi. Peter var í viðtali hjá Ásgeiri Erlendssyni íþróttafréttamanni á Stöð 2.

„Það er hægt að búast við því að íslenska landsliðið sé að þróa sinn stíl og móta það leikkerfi sem við trúum að geti reynst íslenska landsliðinu vel bæði á þessu Norðurlandamóti sem og í komandi Evrópukeppni," sagði Peter Öqvist.

„Við viljum nýta hraðann og fjölhæfnina í liðinu og spila leikstíl sem passar vel fyrir íslenskan körfubolta," sagði Peter. Ísland spilar fjóra leiki á NM á móti Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Noregi.

„Hvað varðar úrslitin á mótinu þá verðum við náttúrulega að bera virðingu fyrir öllum mótherjum okkar en ég tel samt að við getum verið hættulegur mótherji. Ég vil ekki gefa út nein árangursmarkmið en ég hef trú á því að þetta lið sé samkeppnishæft og geti verið með í baráttunni," sagði Peter.

„Það væri frábært fyrir okkur ef okkur tekst að vinna þrjá leiki í þessu móti. Það væru frábær úrslit fyrir okkur á þessum tímapunkti," sagði Peter

„Við erum með sterkt lið og leikmenn á frábærum aldri eins og strákana sem eru fæddur 1982 að viðbættum Loga Gunnarssyni sem er fæddur 1981. Þeir eru kjarninn í liðinu en svo erum við líka með unga leikmenn sem eru að koma upp úr ýngri landsliðinum og þeir munu berjast fyrir sínum mínútum," sagði Peter.

„Ég er ánægður með hæfileikana í liðinu en ég geri mér vel grein fyrir því að við erum með minna lið en flestir mótherjar okkar. Við munum reyna að finna leiðir til þess að nýta okkar styrkleika og vera eins hættulegir og við getum verið þrátt fyrir smæðina," sagði Peter en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×