Handbolti

AG ætlar að spila Meistaradeildarleiki í Parken í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason og Snorri Steinn Guðjónsson urðu tvöfaldir meistarar með AG á síðasta tímabili.
Arnór Atlason og Snorri Steinn Guðjónsson urðu tvöfaldir meistarar með AG á síðasta tímabili. Mynd/Heimasíða AG
Íslendingaliðið AG Kaupmannahöfn vakti mikla athygli í vor þegar liðið spilaði úrslitaleikinn um danska meistaratitilinn í handbolta á fótboltavellinum í Parken. Framundan eru leikir í Meistaradeild Evrópu og það hefur verið ákveðið að "flottustu" heimaleikirnir fari fram í Parken.

Arnór Atlason og Snorri Steinn Guðjónsson urðu tvöfaldir meistarar með AG á síðasta tímabili og nú hafa þeir Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson bæst í hópinn fyrir átökin í Meistaradeildinni.

Leikirnir á móti Bjerringbro-Silkeborg í vor fóru fram á miðju vallarins í Parken en að þessu sinni ætla menn bara að nota annan helminginn svo að allir áhorfendur sjái völlinn vel.

„Við höfum rætt það að nota helminginn af Parken. Þá ætti að vera pláss fyrir 15 til 18 þúsund manns sem væru allir nálægt vellinum og með gott sjónarhorn á leikinn. Þetta ætti að vera skemmtileg upplifun," sagði Søren Colding við TV2.

Forráðamenn AG hafa sett stefnuna á það að leikirnir við Montpellier og THW Kiel verði spilaðir í Parken. Það má búast við því að verði mikill áhugi með íslenskra handboltáhugamanna á Íslendingaslag AG og Kiel.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×