Handbolti

Hammerseng er ekki kona einsömul

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hin norska Gro Hammerseng, ein besta handknattleikskona heims, á von á barni og mun því lítið spila á næstu leiktíð.

Hammerseng tilkynnti ásamt kærustu sinni, Anja Edin, að von væri á barninu í febrúar. „Við hlökkum til að takast á við foreldrahlutverkið og þetta eru spennandi tímar,“ er haft eftir Hammerseng í norskum fjölmiðlum.

„Ég ætla að halda mér í formi og snúa mér aftur að handboltanum eins fljótt og mögulegt er,“ bætti hún við.

Hún mun því missa af heimsmeistarkeppninni í Brasilíu en óvíst er hvort hún nái Ólympíuleikunum í Lundúnum á næsta ári. Þjálfari norska landsliðsins er Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson.

Hammerseng vakti mikla athygli, bæði í Noregi og víðar, þegar að norskir fjölmiðlar birtu mynd af henni sem sýndi stælta magavöðva hennar. Adolf Ingi Erlingsson, fréttamaður á Rúv, starfaði á EM í Danmörku í fyrra fyrir heimasíðu Handknattleikssambands Evrópu og gerði það að umfjöllunarefni sínu eins og margir muna kannski eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×