Körfubolti

Margrét Kara: Náðum að drepa þær í seinni hálfleik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Við kláruðum þetta í seinni hálfleik en mér fannst þetta opið í hálfleik. Við náðum að drepa þær í seinni,“ sagði Margrét Kara Sturludóttir sem átti frábæran leik í sigri KR á Keflavík í dag í Meistaraleik KKÍ.

„Um leið og við förum að spila góða vörn falla hlutirnir með okkur. Við leggjum upp með að spila sem bestu og grimmustu vörnina og þá kemur hitt allt saman,“ sagði Kara sem 22 stig og tók 10 fráköst.

KR-liðið hefur gengið í gegnum miklar breytingar frá því í fyrra. Mikilvægir leikmenn hafa yfirgefið félagið en nýir sterkir leikmenn komnir í stað þeirra.

„Við erum stelpur úr öllum áttum og erum ennþá að pússa okkur saman. Þetta lítur bara vel út,“ sagði Kara.

Reyana Colson, Bandaríkjamaðurinn í liði KR, átti frábæran leik og virðist falla vel inn í lið Vesturbæinga.

„Hún spilaði virkilega vel í kvöld. Þetta er frábær varnarmaður og yndislegt að hafa hana fyrir framan sig að spila vörn. Þá getur maður verið að einbeita sér að stela boltum.“

Colson var afar dugleg fremst á vellinum að pressa unga dripplara Keflavíkur.

„Hún (Colson) er auðvitað algjör varnarmaður fyrst og fremst. Þótt hún sé að skora helling er það allt úr stolnum boltum, svolítið eins og Marcus Walker í karlaliðinu í fyrra. Það er lottó að fá svona leikmann,“ sagði Kara sem telur að Keflavíkurstúlkur vanti afgerandi dripplara.

Keflavík lagði KR-stúlkur í úrslitum Lengjubikarsins á dögunum. Í dag virkuðu liðin í tveimur gæðaflokkum því yfirburðir KR-stúlkna voru mjög miklir.

„Okkur gekk ekki vel þá. Vorum engan ekki tilbúnar, spiluðum nánast enga vörn og tókum engin fráköst. Við komum líka sárar tilbaka og fengum að hefna.“

Kara segir sérstaklega skemmtilegt að leggja Keflavík að velli.

„Já, það er náttúrulega gamla liðið mitt. Það er verra að tapa á móti þeim og skemmtilegra að vinna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×