Handbolti

Hedin gagnrýndur fyrir að þjálfa Aalborg á sama tíma og norska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Hedin.
Robert Hedin. Mynd/Nordic Photos/Getty
Robert Hedin, þjálfari norska handboltalandsliðsins, ætlar líka að taka við þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins Aalborg Håndbold en íslenski landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson er í sömu stöðu því Guðmundur þjálfar einnig Rhein-Neckar Löwen.

Norska handboltasambandið samþykkti að Hedin tæki að sér annað starf en þegar hann tók við norska landsliðinu á sínum tíma þá var hann einnig þjálfari þýska liðsins Melsungen. Hann hætti með Melsungen eftir eitt ár í tvöföldu starfi.

Jakob Vestergaard var rekinn sem þjálfari Aalborg á dögunum eftir aðeins fimm leiki þegar liðið var búið að tapa þremur leikjum í röð. Aalborg er nú í 8. sæti deildarinnar átta stigum á eftir toppliði AG Kaupmannahöfn. Þrír norskir landsliðsmenn spila með liði Aalborg en það eru þeir Håvard Tvedten, Kristian Kjelling og Ole Erevi.

Norskir handboltasérfræðingar hafa gagnrýnt Hedin fyrir að taka að sér annað lið en þeir telja að Svíinn sýni norksa handboltalandsliðinu ekki nógu mikla virðingu með þessu. Undir stjórn Hedin varð norska handboltalandsliðið í 9. sæti á síðustu tveimur Heimsmeistaramótum og í 7. sæti á EM í Austurríki 2010.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×