Handbolti

Las það í bréfi frá Þóri að hún væri ekki lengur í landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karoline Dyhre Breivang (8) með Marit Breivik (fyrrum þjálfara) og Þórir Hergeirssyni í leik norska landsliðsins á HM 2007.
Karoline Dyhre Breivang (8) með Marit Breivik (fyrrum þjálfara) og Þórir Hergeirssyni í leik norska landsliðsins á HM 2007. Mynd/AFP
Karoline Dyhre Breivang er einn sigursælasti leikmaður norska kvennalandsliðsins í handbolta og á að baki 264 landsleiki fyrir Noreg. Þórir Hergeirsson, þjálfari norska liðsins, ætlar hinsvegar ekki að veðja á hana á HM í Brasilíu í desember en það hefur vakið athygli að Breivang fékk fyrst að vita það í bréfi frá Þóri að hún væri búin að missa sæti sitt í landsliðinu.

„Þetta hljómar harðneskjulega en þetta er venjan hjá okkur. Við þurfum að tilkynna úrtakshóp fyrir HM og leikmenn fengu að vita það bréflega hvort þeir væru með eða ekki. Það er alltaf möguleiki að koma inn fyrir næsta stórmót," útskýrir Þórir Hergerisson í viðtali við Dagbladet.

Karoline Dyhre Breivang er orðin 31 árs gömul en hún hefur unnið Ólympíugull og fjóra Evrópumeistaratitla. Hún hefur hinsvegar aldrei orðið heimsmeistari en vann silfur á HM 2007 og brons á HM 2009

„Ég hef aldrei verið örugg með sæti mitt í liðinu ekki einu sinni þegar allir vpru að tala um að ég væri pottþétt valin. Ég bíð alltaf spennt eftir því hvort ég fái að vera með," sagði Breivang við Dagbladet en af hverju ætti Þórir að velja hana.

„Ég er góð að leysa þau verkefni sem ég fæ, lítil sem stór. Ég vinn vel fyrir liðið og er góð í vörn. Ég er sterk í návígum og ég er góð að spila aðra leikmenn uppi," sagði Breivang. Breivang var í lykilhlutverki með norska liðinu Larvik í vor þegar liðið tryggði sér sigur í Meistaradeildinni.

„Karo" hefur tekið mjög fagmannlega á þessu mál. Það er búið að vera frábært að vinna með henni. Það er líka ánægjulegt að sjá hversu vel hún er að spila í haust," sagði Þórir en mun hann velja hana vegna allra forfallanna í norska hópnum í haust.

„Leikmenn sem ekki voru valdir fengu svona bréf. Fjöldi leikmanna fer eftir fjármagninu sem við höfum. Þetta er vanalegt ferli. Stundum þurfa þjálfarar að setjast niður, taka nýja stefnu, og viðurkenna að það þarf að gera eitthvað til að bæta liðið." sagði Þórir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×