Körfubolti

Jakob og Helena valin Körfuknattleiksfólk ársins 2011

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Heimasíða KKÍ
Jakob Sigurðarson og Helena Sverrisdóttir hafa verið valin körfuknattleiksmaður og körfuknattleikskona ársins 2011 af KKÍ. Þetta er í fyrsta sinn sem Jakob er valinn en Helena var nú valin sjöunda árið í röð. Jakob endaði fjögurra ára sigurgöngu Jóns Arnórs Stefánssonar í þessu árlega kjöri.

Helena hafði betur í baráttu við Margréti Köru Sturludóttur (2. sæti) og Pálínu Gunnlaugsdóttur (3. sæti) en Jakob fékk mestu samkeppnina frá Hlyni Bæringssyni (2. sæti) og Jóni Arnóri Stefánssyni (3. sæti).

Jakob átti stóran þátt í að Sundsvall varð sænskur meistari í maí 2011. Hann tryggði liðinu oddaleik með ævintýralegri 3-stiga körfu og í úrslitaleiknum skoraði hann 31 stig og var stigahæsti leikmaður Sundsvall sem fagnaði meistaratitlinum á heimavelli.

Jakob lék með íslenska landsliðinu á Norðurlandamótinu sem fram fór í Sundsvall í júlí sl og var valinn í úrvalslið mótsins en Jakob lék mjög vel með liðinu. Einnig lék Jakob með landsliðinu tvo æfingaleiki gegn Kínverjum í Kína í september.

Helena útskrifaðist frá TCU háskólanum síðasta sumar og gerði fljótlega samning við Good Angels Kosice frá Slóvakíu en liðið er langsterkasta lið Slóvakíu og leikur í Meistaradeild Evrópu. Helena er fyrsta konan frá Íslandi sem spilar í Meistaradeild Evrópu en lið hennar er á toppi slóvakísku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×