Fótbolti

Katrín jafnaði met Rúnars

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Katrín tekur hér við viðurkenningu síðastliðið sumar í tilefni af 100. landsleik hennar.
Katrín tekur hér við viðurkenningu síðastliðið sumar í tilefni af 100. landsleik hennar. Fréttablaðið/Valli
Katrín Jónsdóttir jafnaði í gær met Rúnars Kristinssonar er hún lék sinn 104. A-landsleik þegar Ísland vann Kína, 2-1, á Algarve Cup. Rúnar lék á sínum tíma jafn marga leiki með A-landsliði karla. Hún getur bætt metið þegar að Ísland mætir Danmörku á mánudaginn.

„Það er sannur heiður að fá að þjálfa leikmann eins og hana," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari. „Hún gerir alltaf sitt, er frábær fyrirmynd fyrir aðra í liðinu og er alltaf í 100 prósent formi."

Margrét Lára Viðarsdóttir, sem skoraði bæði mörk Íslands gegn Kína í gær, hrósaði henni einnig í hástert. „Allir íþróttamenn mega taka hana sér til fyrirmyndar. Hún er sannur leiðtogi og örugglega í besta forminu hér þrátt fyrir aldurinn. Stundum höldum við stelpurnar að ferlinum sé lokið við 28 ára aldurinn en ef maður er tilbúinn að leggja mikið á sig til að halda sér í góðu formi er allt hægt. Það hefur Katrín sýnt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×