Handbolti

Guðjón Valur: Það var allt að í þessum leik

Henry Birgir Gunnarsson í Halle skrifar
Guðjón Valur fékk ekki úr miklu að moða í gær og skoraði aðeins eitt mark úr hraðaupphlaupi.
Guðjón Valur fékk ekki úr miklu að moða í gær og skoraði aðeins eitt mark úr hraðaupphlaupi. Fréttablaðið/Vilhelm
Hornamaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson var sleginn eftir skellinn í Halle í gær og virtist hreinlega ekki trúa því sem hafði gerst. Lið sem blómstraði síðasta miðvikudag var nánast eins og áhugamenn í gær.

„Það fór nákvæmlega allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis. Vörnin var léleg og við náðum engan veginn til þeirra. Þeir skutu að vild. Það var engin vörn og engin markvarsla. Það var slæm ákvörðunartaka í sókn. Það var allt að í þessum leik,“ sagði Guðjón Valur en íslenska liðið var ekki tilbúið í slaginn er hann byrjaði.

Þó svo talað hefði verið um að byrja af grimmd var engin stemning í íslenska liðinu sem átti hreinlega ekki möguleika frá fyrstu mínútu.

„Mér fannst við vera vel stemmdir fyrir leik en svo kom annað í ljós. Þessi leikur var í raun spegilmynd af leiknum heima nema núna tóku þeir okkur í bakaríið. Það er svo sorglegt að lenda í þessu því við erum með reynslumikið lið sem á ekki að láta svona hluti gerast. Auðvitað voru menn meiddir og við vorum þunnskipaðir, það verður að segjast eins og er. Engu að síður er þetta langt frá því að vera ásættanlegt.“

EM-draumurinn lifir enn þrátt fyrir tapið en örlög íslenska liðsins eru ekki lengur algjörlega í þeirra höndum. Guðjón var ekki á því að leggja niður vopnin þó svo allt hafi farið úrskeiðis í gærkvöldi.

„Við vinnum næstu tvo leiki og náum að hafa betur í innbyrðisviðureignum gegn Austurríki. Þá erum við komnir áfram. Þetta er ekki flókið. Ef við þurfum að vinna Austurríki stórt þá gerum við það. Við ætlum ekki að gefast upp heldur fara á EM,“ sagði Guðjón Valur ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×