Tónlist

Grúskarar með plötu

Einar Oddsson er maðurinn á bak við hljómsveitina Grúsk.
fréttablaðið/valli
Einar Oddsson er maðurinn á bak við hljómsveitina Grúsk. fréttablaðið/valli
Fyrsta plata Grúsks er komin út og er það Zonet sem dreifir. Á plötunni eru ellefu lög eftir Einar Oddsson sem einnig gerir textana ásamt Magnúsi Þór Sigmundssyni. Tvö laganna eru við ljóð eftir Þórarin Eldjárn og Davíð Stefánsson.

„Platan átti að koma út í fyrra en hún tafðist, eins og gerist stundum,“ segir Einar, sem er mjög ánægður með útkomuna. „Þetta byrjaði fyrir fimm árum, þannig að þetta er búið að vera langt ferli.“

Grúsk er óvenjuleg hljómsveit því hún samanstendur af 22 manna hópi söngvara og hljóðfæraleikara. Meðal þeirra sem koma við sögu á plötunni eru Pétur Hjaltested, sem er jafnframt upptökustjóri, Ásgeir Óskarsson, Birkir Rafn Gíslason, Haraldur Þorsteinsson, Björgvin Gíslason, Bergsveinn Arilíusson, Björgvin Ploder, Egill Rafnsson og Heiða Ólafsdóttur. Grúsk flytur popptónlist þar sem má greina áhrif frá Bítlunum og listarokki 8. áratugarins, í bland við nútímalegri strauma. Grúskarar hafa áður sent frá sér tvö lög sem fengu góðar viðtökur, Góða skapið og Til lífs á ný. Útgáfutónleikar verða í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði 20. október. „Ætli þetta verði ekki sex til átta manna hópur á sviðinu,“ segir Einar og lofar skemmtilegum tónleikum. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×