Körfubolti

Peter Öqvist: Nokkrir riðlar hefðu verið auðveldari fyrir okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Öqvist tók við íslenska landsliðinu í sumar.
Peter Öqvist tók við íslenska landsliðinu í sumar. Mynd/Hag
Íslenska karlalandsliðið lenti í nær hreinræktuðum austur-evrópskum riðli þegar dregið var í undankeppnina fyrir komandi Evrópukeppni landsliða í körfuknattleik í höfuðstöðum FIBA Europe í gær. Ísland er í sex liða riðli en leikið verður heima og að heiman dagana 15. ágúst til 11. september næstkomandi. Með Íslandi í riðli eru Serbía, Ísrael, Svartfjallaland, Eistland og Slóvakía.

„Við vorum ekki heppnir og þetta er erfiður riðill enda er þetta erfið keppni því það eru mörg sterkt landslið í Evrópu,“ sagði Peter Öqvist, landsliðsþjálfari Íslands. Íslenska liðið var síðast upp úr pottinum.

„Ég fylgdist með drættinum í beinni. Það voru nokkrir riðlar sem hefðu verið auðveldari fyrir okkur en svona er þetta bara. Við fengum þennan riðil og það er engin ástæða til að vorkenna okkur sjálfum. Nú þurfum við bara að einbeita okkur að því að spila eins vel og við getum í þessum leikjum,“ sagði Peter.

„Það er allt mögulegt. Við erum að fara að mæta sterkum þjóðum eins og Serbíu, Ísrael og Svartfjallalandi en þau þurfa líka öll að hoppa upp í flugvél til Reykjavíkur. Ef við getum náð einum eða tveimur óvæntum sigrum á heimavelli getum við kannski látið okkur dreyma um eitthvað,“ sagði Peter Öqvist.

Ljóst er að löng og kostnaðarsöm ferðalög bíða íslenska landsliðsins næsta haust, en allir tíu leikirnir fara fram á innan við mánuði. „Þetta eru löng ferðalög en Hannes (Jónsson formaður) og Friðrik Ingi (Rúnarsson framkvæmdastjóri) gerðu örugglega allt sitt í að fá eins hagstæða leikjaniðurröðun og hægt er. Ferðlögin munu samt hafa áhrif í þessari undankeppni,“ sagði Peter, sem segir það of snemmt að stefna á eitthvað sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×