Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Finnland 43-25

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Laugardalshöllinni skrifar
Mynd/Valli
Ísland vann sannkallaðan stórsigur á Finnum 43-25 í vináttulandsleik í Laugardalshöllinni í kvöld. Þetta var lokaleikur liðsins fyrir EM í Serbíu sem hefst á sunnudaginn. Staðan í hálfleik var 21-16, Íslandi í vil.

Segja má að Ísland hafi mætt með hálfum huga til leiks því þegar rétt liðlega stundarfjórðungur var liðinn af leiknum voru Finnar yfir 11-10 og íslenska vörninn hriplek. Þá tóku íslensku leikmennirnir sig saman í andlitinu og skoruðu tíu mörk gegn tveimur og náðu undirtökunum í leiknum sem þeir létu síðan aldrei af hendi.

Segja má að íslenska liðið hafi efnt til sýningar í seinni hálfleik. Finnar fundu að við ofurefli var að etja og misstu sjálfstraustið. Íslendingar keyrðu yfir andstæðinga sína. Vörnin var öflug og liðið skoraði hvert markið af fætur öðru úr hraðaupphlaupum en Ísland skoraði alls sexgtán mörk úr hraðaupphlaupum.

Allir leikmenn íslenska liðsins fengu að spreyta sig og nýtti Oddur Gretarsson tækifærið sérstaklega vel en hann skoraði fimm mörk á aðeins þrettán mínútum. Flestir leikmenn íslenska liðsins áttu góðan dag og fóru létt með lakari andstæðing.

Leikurinn var góð æfing fyrir Evrópumeistaramótið sem hefst á sunnudag en Ísland mætir Króatíu í sínum fyrsta leik á mánudaginn klukkan 19.10.

Guðmundur: Förum ekki á flug við þetta
Róbert Gunnarsson.
"Við vorum í bölvuðu basli með varnarleikinn í fyrri hálfleik. Bæði vorum við í basli þegar við stóðum vörnina og einnig vorum við slakir þegar þeir keyrðu á okkur hraða miðju. Það var ágætt að fá þetta fram. Við náðum að laga þetta í síðari hálfleik. Sóknarleikurinn var heilt yfir mjög góður. Skotnýtingin var góð hjá flestum leikmönnum liðsins. Þetta var í raun óvenju góð skotnýting," sagði Guðmundur Guðmundsson þjálfari Íslands eftir leik.

"Andstæðingurinn var ekkert sérstaklega sterkur þannig að við förum ekkert á flug við þetta. Við lærum af þessu og sjáum hvað við þurfum að bæta, sérstaklega þegar við erum að skila okkur til baka því það munu öll lið keyra á okkur hraða miðju. Við þurfum að vera tilbúnir að verjast því betur heldur en við gerðum í fyrri hálfleik."

"Þeir spiluðu vel til að byrja með og við vorum ekki klárir. Menn voru að gera þetta svolítið hver í sínu horni til að byrja með. Það vantaði sál og hjarta í vörnina og þegar það vantar þá vantar mjög mikið."

Guðmundur notaði hópinn vel í kvöld og sérstaklega spilaði Ólafur Bjarki Ragnarsson margar mínútur en hann mun leika stórt hlutverk í Serbíu í fjarveru Snorra Steins Guðjónssonar.

"Eftir að Snorri Steinn gaf ekki kost á sér þá er það viðbúið að Ólafur Bjarki mun fá stærra hlutverk og það er bara jákvætt eins og staðan er og ég treysti honum í það. Hann er að spila vel í íslensku deildinni."

Ingimundur Ingimundarson lék ekki með Íslandi í dag vegna meiðsla. "Ég vona bara það besta og að hann verði tilbúinn þegar út í þetta er komið. Það er búið að gera allt til að hjálpa upp á þennan bata, að hann verði sem hraðastur," sagði Guðmundur en Sverre Jakobsson og Vignir Svararsson léku allan leikinn í miðju varnarinnar í fjarveru Ingimundar.

"Andstæðingurinn var ekki sá sterkasti en þeir spiluðu hratt og það var við ýmislegt að glíma á móti þeim. Þannig lagað fengu þeir góða æfingu saman en ég var engu að síður mjög óánægður með vörnina í fyrri hálfleik en það voru ekki bara þeir, það voru fleiri sem voru ekki að spila vel en sem betur fer löguðum við það og þetta verður í lagi, þetta var í lagi á mótinu í Danmörku um síðustu helgi og við skulum vona að það verði reyndin þegar á hólminn er komið úti í Serbíu," sagði Guðmundur að lokum.

Guðjón Valur: Þetta var góð æfing
Guðjón Valur Sigurðsson.
"Þetta var stöggl til að byrja með en eftir að menn vöknuðu og fóru að hreyfa á sér lappirnar þá gerðum við þetta að góðri æfingu," sagð Guðjón Valur Sigurðsson í kvöld.

"Við vildum gera þetta að góðri æfingu og fá það út úr þessu sem við lögðum upp með og við fengum það í lok fyrri hálfleiks og í seinni hálfleik. Þetta var fínt en auðvitað var þetta aðeins vanmat og menn að hlífa sér vitandi hvað bíður."

"Það var ágætt að ná að skemmta landanum og það er vonandi að fólk hafi haft gaman af fallegum mörkum og ágætis handbolta en mótspyrnan var heldur ekkert gríðarlega mikil," sagði Gujón Valur.

Ingimundur: Verð klár í slaginn
Aron Pálmarsson.
"Ég má ekki sprikla fyrr en á sunnudaginn segja læknar. Ég held að þetta verði allt í góðu," sagði Ingimundur Ingimundarson sem lék ekki með Íslandi í kvöld vegna meiðsla.

Ingimundur hefur verið í meðhöndlun alla vikuna og ekkert æft síðan fyrir síðustu helgi.

"Það er slæmt að missa af lokadögunum þegar það er verið að fínpússa ýmis atriði en fyrir vikið þá horfi ég meira á myndböndin og kem betur undirbúinn fyrir hvern leik," sagði Ingimundur

"Það er lærvöðvafesta við mjaðmabeinið sem hefur trosnað, ég fór í sprautu í vikunni og því þurfti ég að hvíla alveg. Þetta kemur allt í ljós en ég held að þetta verði í góðu lagi," sagði bjartsýnn Ingimundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×