Handbolti

Handboltahöllin á ÓL í London má ekki lengur heita Handboltahöllin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Handboltahöllin á ÓL í London. Ólympíuleikvangurinn er í baksýn.
Handboltahöllin á ÓL í London. Ólympíuleikvangurinn er í baksýn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Handboltahöllin á Ólympíuleikunum í London í sumar hefur fengið nýtt nafn en hún heitir hér eftir Koparkassinn eða "Copper Box". Forráðamenn breska handboltasambandsins eru allt annað en sáttir með nafnabreytinguna og ætla að berjast fyrir því að gamla nafnið fái að halda sér.

Nýja nafnið tekur mið af útliti og gerði íþróttahallarinnar en hún tekur 7000 manns í sæti og mun hýsa alla leik í riðlakeppni og átta liða úrslitum handboltakeppni Ólympíuleikanna. Undanúrslit og leikir um sæti fara síðan fram í Körfuboltahöllinni.

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fá að halda nafni íþróttarinnar í nafni hússins. Ólympíuleikarnir hafa gefið handboltanum tækifæri til að vaxa og dafna og það bendir allt til þess að svo verði raunin. Við teljum að við eigum allt annað skilið en að missa handboltann úr nafni hallarinnar," sagði Paul Goodwin framkvæmdastjóri breska handboltasambandsins.

Handbolti er ekki eina íþróttin á Ólympíuleikunum sem fer fram í höllinni því þar verður einnig keppt í nútímafimmtarþraut sem og í blindrabolta á Ólympíuleikum fatlaðra. Húsið mun síðan hýsa allskyns íþróttir eftir leikana.

Íslenska landsliðið í handbolta á enn möguleika á því að komast á Ólympíuleikanna en liðið tekur þátt í forkeppni leikanna í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×