Handbolti

Stuðningsmenn Magdeburgar hafa sterkar taugar til Íslands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þessir kappar voru hressir og kátir en vildu reyndar ekki segja til nafns.
Þessir kappar voru hressir og kátir en vildu reyndar ekki segja til nafns. Mynd/E. Stefán
Blaðamaður Vísis hitti á þessa tvo stuðningsmenn þýska úrvalsdeildarfélagsins Magdeburg sem gerðu sér ferð til Berlínar til að sjá sína menn spila gegn Füchse Berlin í gær.

Vísir tók þá tali fyrir leikinn sem Magdeburg reyndar tapaði síðan, 24-20. Spurður um tengingu Íslands við félagið sögðu þeir hana vera sterka.

„Ólafur Stefánsson spilaði með Magdeburg og var mjög góður," sagði annar þeirra en hvorugur vildi reyndar segja til nafns fyrir viðtalið. „Svo náði Alfreð Gíslason frábærum árangri með liðið. Þótt hann sé hjá Kiel í dag hefur hann sterka tengingu inn í samfélagið enda býr hann á svæðinu."

„Sigfús Sigurðsson var líka áberandi leikmaður á sínum tíma og við munum líka eftir ungum Arnóri Atlasyni."

Þeir gleðjast líka yfir árangri íslenska landsliðsins á undanförnum árum. „Jú, auðvitað heldur maður aðeins með þeim líka. Ég hef fylgst vel með okkar mönnum í íslenska landsliðinu."

Björgvin Páll Gústavsson er nú eini Íslendingurinn sem er á mála hjá Magdeburg. „Hann er góður markvörður og hefur sýnt það í mörgum leikjum. Því miður fyrir hann er Gert Eijlers oft tekinn fram yfir enda er hann líka mjög góður."


Tengdar fréttir

Dagur og refirnir frá Berlín gefa ekkert eftir

Vísir fékk stemninguna beint í æð í Max-Schmeling-höllinni í kvöld þar sem að heimamenn í Füchse Berlin unnu góðan sigur á grannliðinu Magdeburg, 24-20, í þýsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×