Handbolti

Afar mikilvægur sigur hjá Degi og félögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Nordic Photos / Getty Images
Füchse Berlin vann mikilvægan sigur í baráttunni um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í dag. Liðið hafði þá betur gegn rússneska félaginu Chekovskie Medvedi, 31-28.

Rússarnir höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 19-17, en heimamenn náðu að laga varnarleikinn í þeim síðari og tryggja sér þar með tvö dýrmæt stig. Alexander Petersson lék ekki með Füchse Berlin í dag vegna meiðsla.

Alls eru þrjú Íslendingalið í B-riðli Meistaradeildarinnar og tvö þeirra eru í baráttunni um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Atletico Madrid er efst í riðlinum og öruggt áfram en næst koma Veszprem (10 stig), Füchse Berlin (9 stig), Kielce (8 stig) og Chekovskie (7 stig). Fjögur efstu liðin komast áfram í 16-liða úrslitin.

Þórir Ólafsson skoraði tvö mörk fyrir Kielce sem vann einnig dýrmætan sigur um helgina, gegn Veszprem í Ungverjalandi, 24-21.

Guðmundur Árni Ólafsson og félagar hans í Bjerringbro/Silkeborg töpuðu í gær fyrir Atletico Madrid, 31-27, í B-riðli Meistaradeildarinnar. Bjerringbro/Silkeborg hefur tapað öllum átta leikjum sínum í riðlinum.

Füchse Berlin á eftir að spila við Atletico Madrid á heimavelli og Bjerringbro/Silkeborg á útivelli, rétt eins og Kielce sem mætir svo Chekovskie Medvedi á heimavelli í lokaumferðinni eftir tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×