Handbolti

Guif stóð í Rhein-Neckar Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen. Nordic Photos / Getty Images
Þjálfarnir Guðmundur Guðmundsson og Kristján Andrésson mættust með lið sín í 16-liða úrslitum EHF-bikarkeppninnar í dag. Lið Guðmundar hafði þar nauman sigur.

Rhein-Neckar Löwen vann Guif með eins marks mun, 35-34, en leikið var í Eskilstuna í Svíþjóð.

Þeir Guðmundur og Kristján þekkjast vel enda var Kristján í íslenska landsliðshópnum sem fór á Ólympíuleikana í Aþenu árið 2004 undir stjórn Guðmundar. Kristján hefur náð góðum árangri með Guif á undanförnum árum og er liðið nú á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar.

Guif hafði tveggja marka forystu í hálfleik, 19-17. Löwen komst svo yfir snemma í seinni hálfleik en Svíarnir voru aldrei langt undan. Miklu munaði um línumanninn Bjarte Myrhol sem skoraði tólf mörk fyrir Löwen í leiknum. Róbert Gunnarsson skoraði eitt mark fyrir Löwen og Haukur Andrésson, bróðir Kristjáns, tvö fyrir Guif.

Elías Már Halldórsson skoraði þrjú mörk fyrir norska liðið Arendal sem tapaði fyrir Gummersbach, 40-27, í Evrópukeppni bikarhafa í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×