Handbolti

Dagur ánægður með að fá Hamburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Dagur Sigurðsson sagði við þýska fjölmiðla að hann væri ánægður með að hafa dregist gegn Þýskalandsmeisturum Hamburg í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Füchse Berlin var í neðsta styrkleikaflokki í drættinum og hefði getað fengið Kiel eða spænsku liðin Barcelona og Atletico Madrid.

„Miðað við hvað við þurftum að fara í löng ferðalög í riðlakeppninni er þetta auðvitað ákjósanlegt," sagði Dagur. „Og við eigum einnig möguleika á að komast áfram."

Füchse Berlin er sem stendur í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar en Hamburg er í því þriðja. Kiel er á toppnum og hefur enn ekki tapað stigi á tímabilinu.

Fyrirliði liðsins, Daninn Torsten Laen, tók í svipaðan streng. „Flestir vildu mæta Barcelona en enginn vildi fá Kiel. Það er í fínu lagi að mæta Hamburg. Við höfum unnið Hamburg í síðustu tveimur heimaleikjum okkar."

Pascal Hens, leikmaður Hamburg, var ekki ánægður að fá Berlínarrefina. „Þetta var versti möguleikinn okkar í stöðunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×