Handbolti

Kiel vann riðilinn á jafntefli í Danmörku

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Aron átti góða innkomu í lið Kiel í seinni hálfleik.
Aron átti góða innkomu í lið Kiel í seinni hálfleik. MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY IMAGES
AG Kaupmannahöfn og Kiel gerðu 24-24 jafntefli í lokaleik liðanna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í handbolta í dag. Kiel vann þar með D-riðilinn með 16 stig, stigi meira en AG og fær lið sem hafnaði í fjórða sæti í riðlum A, B eða C á meðan AG þarf að mæta liði sem hafnaði í þriðja sæti.

Leikurinn var jafn frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Kiel komst tvisvar tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik annars munaði aldrei meira en einu marki á liðunum. Staðan var jöfn í hálfleik 11-11.

AG kom tvisvar tveimur mörkum yfir í seinni hálfleik en annars var sagan sú sama, það var jafnt á öllum tölum. AG komst í 22-20 þegar enn voru tíu mínútur eftir af leiknum en þá hrundi sóknarleikur liðsins og fátt gekk upp. Það var þeim til happs að varnarleikur liðsins var hinn prýðilegasti.

Kiel dugði jafntefli til að sigra riðilinn og komst liðið yfir þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Mikkel Hansen jafnaði metin á síðustu sekúndu leiksins og jafntefli staðreynd en það voru leikmenn Kiel sem fögnuðu í leikslok.

Guðjón Valur Sigurðsson var markhæsti leikmaður vallarins með 8 mörk, Mikkel Hansen bætti við sex mörkum fyrir AG og Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson skoruðu tvö mörk hvor. Arnór Atlason kom ekkert við sögu í leiknum.

Kim Anderson var markahæstur í liði Kiel með fimm mörk líkt og Momir Ilic en öll mörk Ilic komu úr vítum. Aron Pálmarsson skoraði eitt mark en hann lék mikilvægar mínútur seint í leiknum eftir að hafa hvílt allan fyrri hálfleikinn.

Dregið verður í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×