Handbolti

Sverre tognaði á brjóstvöðva - ætlar að harka af sér á móti Síle

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverre Jakobsson.
Sverre Jakobsson. Mynd/Vilhelm
Íslenska karlalandsliðið í handbolta leikur sinn fyrsta leik af þremur í forkeppni Ólympíuleikanna í kvöld þegar strákarnir okkar mæta Síle. Ísland er í riðli með Síle, Japan og gestgjöfum Króatíu og tvö efstu liðin komast inn á Ólympíuleikana í London.

Íslenska liðið varð fyrir smá áfalli í gær þegar varnartröllið Sverre Jakobsson meiddist á æfingu en þrátt fyrir að meiðslin séu á leiðinlegum stað þá ætlar hann að harka af sér. Kolbeinn Tumi Daðason ræddi við Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Sverre tognaði á brjóstvöðva á æfingu í gær sem er mjög óvanalegt. Hann er ekki eins frískur og við vildum hafa hann. Við vitum ekki alveg hvað þetta þýðir. Ég held nú að hann muni reyna að harka þetta af sér en þetta er á svolítið erfiðum stað," sagði Guðmundur um meiðslin hans Sverra.

Íslensku strákarnir voru ekki ánægðir með frammistöðu sína í jafnteflinu á móti hálfgerðu b-liði Norðmanna í Laugardalshöllinni á þriðjudagskvöldið en það var eini æfingaleikur liðsins fyrir forkeppni ÓL.

„Við fórum yfir leikinn og skoðunum hann mjög vel. Við sáum að við getum lagfært mjög margt og þá aðallega varnarlega og í því að hlaupa til baka. Við fórum vel yfir það í gær. Við erum að öllum líkindum að mæta allt annarskonar vörn í kvöld á móti Síle heldur en við gerðum á móti Norðmönnum. Þetta verður allt annar leikur og allt annað dæmi," sagði Guðmundur.

„Við erum búnir að undirbúa okkur eins og kostur er og vonum bara að það dugi til þess að vinna í kvöld. Við höfum það fínt í Króatíu. Við erum á ágætis hóteli þótt að það sé ekki neinn yfirburðar lúxus. Keppnishöllin er mjög flott og andinn er fínn. Við ætlum okkur að klára þetta verkefni og tryggja okkur inn á Ólympíuleika. Fyrsta skrefið þurfum við að stíga í kvöld og ætlum okkur ekkert annað en sigur," sagði Guðmundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×