Körfubolti

NM unglinga í körfu: Einn leikur um gull og tveir leikir um brons

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur Orri Valsson er í stóru hlutverki hjá 18 ára landsliðinu.
Valur Orri Valsson er í stóru hlutverki hjá 18 ára landsliðinu.
Í dag fer fram lokadagurinn á Norðurlandamóti unglinga í körfubolta sem fer eins og venjulega fram í Solna í Svíþjóð. Þrjú af fjórum landsliðum Íslands eiga möguleika á verðlaunum þar af spila 18 ára strákarnir um gullið. Sextán ára strákarnir urðu að sætta sig við að lenda í fimmta og síðasta sætinu.

18 ára strákarnir spila til úrslita við Finna en þeir hafa unnið alla fjóra leiki sína á mótinu þar á meðal 71-64 sigur á Finnum í gær í lokaleik riðlakeppninnar. leikurinn í gær gaf þó ekki alveg rétta mynd af styrk liðanna því báðir þjálfararnir hvíldu lykilmenn í leiknum.

Bæði kvennaliðin leika um bronsverðlaunin á móti Dönum. 16 ára stelpurnar voru einni körfu frá því að komast í úrslitaleikinn en þær unnu jafnmarga leiki og Svíar og Finnar sem spila til úrslita. 18 ára stelpurnar tryggðu sér sæti í bronsleiknum með góðum sigri á Norðmönnum.

Úrslitaleikur 18 ára strákanna hefst klukkan 9.15 að íslenskum tíma en fimmtán mínútum fyrr hefst bronsleikur 16 ára stelpnanna. Bronsleikur 18 ára stelpnanna hefst síðan klukkan 12.30 og það verður síðasta leikur íslensku liðanna á NM í ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×