Körfubolti

Strákarnir spila um gullið - fóru illa með Norðmenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Mynd/Valli
Íslenska 18 ára landsliðið í körfubolta er að gera góða hluti á Norðurlandamótinu í körfubolta í Solna í Svíþjóð en þeir eru búnir að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum eftir 41 stigs sigur á Norðmönnum, 83-42. Strákarnir höfðu áður unnið Dani og Svía á mótinu.

Martin Hermannsson (13 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar), Valur Orri Valsson (10 stig, 9 stoðsendingar og 7 fráköst) og Svavar Ingi Stefánsson (10 stig) voru atkvæðamestir í íslenska liðinu í þessum leik en Einar Árni Jóhannsson, þjálfari liðsins, dreifði spilatímanum vel á milli manna.

Íslensku strákarnir mæta Finnum í lokaleik riðlakeppninnar á morgun en Finnar eru í baráttu við Svía og Norðmenn um sæti í úrslitaleiknum á móti Íslandi.

Strákarnir í 18 ára liðinu þekkja það vel að standa sig vel á Norðurlandamótinu því þeir urðu Norðurlandameistarar með 16 ára liðinu fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×