Íslenski boltinn

Haukar fengu á sig fyrsta markið og töpuðu stigum í uppbótartíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallur Hallsson, fyrirliði Þróttar.
Hallur Hallsson, fyrirliði Þróttar. Mynd/Anton
Karl Brynjar Björnsson tryggði Þrótti stig á móti toppliði Hauka í 1. deild karla í fótbolta í kvöld þegar hann skoraði jöfnunarmark á annarri mínútu í uppbótartíma. Þetta var jafnframt fyrsta markið sem er skorað á Daða Lárusson, markvörð Hauka í sumar.

Aron Jóhannsson kom Haukum í 1-0 á 15. mínútu. Það leit allt út fyrir að Haukarnir væru að landa öðrum 1-0 sigrinum í röð og að halda marki sínu hreinu í fjórða leiknum í röð en Karl Brynjar náði á síðustu stundu að tryggja Þróttaraliðinu annað jafnteflið í röð.

Ólafur Jóhannesson, fyrrum landsliðsþjálfari, er þjálfari Hauka en stigið nægði liðinu til að ná eins stigs forskoti á Víking Ólafsvík. Víkingar eiga þó leiki inni á móti Þór á Akureyri á laugardaginn.

Willum Þór Þórssyni hefur ekki enn tekist að stýra Leikni til sigurs í 1. deildinni í sumar en liðið gerði markalaust jafntefli á móti Víkingi í kvöld. Þetta var annað jafntefli Leiknis í röð eftir töp í tveimur fyrstu leikjunum. Víkingar eru enn taplausir undir stjórn Ólafs Þórðarsonar en hafa aftur á móti gert þrjú jafntefli í fjórum leikjum.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×