Handbolti

Helga gæti orðið fyrsta konan í framkvæmdastjórn EHF

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Helga H. Magnúsdóttir sem setið hefur í mótanefnd Evrópska handknattleikssambandsins undanfarin tólf ár er í framboði til framkvæmdastjórnar sambandsins.

Helga, sem er Hafnfirðingur og fyrrum landsliðskona í handbolta, segir í samtali við Vísi vera að búa sig undir mikinn kosningaslag en ellefu sitja í framkvæmdastjórninni.

„Það eru þrjú laus sæti og að minnsta kosti fjórtán að berjast um þau," segir Helga og grínast með að til að koma sér í gírinn ætli hún að skella sér á Víkingahátíðina í Hafnarfirði.

„Rimman er hörð. Þetta er svolítið karlaveldi," segir Helga en kona hefur aldrei setið í framkvæmdastjórninni.

Öll aðildarríki sambandsins hafa atkvæðarétt en kosið verður á ársþingi EHF í Mónakó á laugardaginn.

Auk Helgu er Knútur Hauksson, formaður Handknattleikssambands Íslands, í framboði til Kvennalandsliðsnefndar EHF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×