Handbolti

Andersson ætlar að hjálpa Svíum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kim Andersson mun spila seinni leikinn með Svíum gegn Svartfjallalandi en hann hafði upphaflega ekki gefið kost á sér í verkefnið.

Svíþjóð og Svartfjallalandi eigast við í undankeppni HM 2013 en Svíar unnu fyrri leikinn á heimavelli með aðeins eins marks mun, 22-21. Síðari leikurinn fer fram í Svartfjallalandi um helgina.

Andersson gaf það út fyrr á árinu að hann myndi hætta að spila með landsliðinu eftir Ólympíuleikana í sumar. Hann gaf svo ekki kost á sér í leikina í undankeppninni þar sem hann vildi frekar hvíla sig eftir langt tímabil með þýska stórliðinu Kiel í vetur.

Andersson sagði í samtali við sænska fjölmiðla að hann væri reiðubúinn að hjálpa liðinu væri þess óskað og nú hefur Ola Lindgren, þjálfari sænska liðsins, staðfest að Andersson verði með Svíum í leiknum mikilvæga um helgina.

Svíar lentu í vandræðum með sóknarleik sinn gegn Svartfellingum en Andersson ætti að geta hjálpað til þar enda ein allra besta skytta heims. Hann er nú genginn til liðs við AG Kaupmannahöfn eftir farsælan feril hjá Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×