Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Argentína 27-23

Kristinn Páll Teitsson í Kaplakrika skrifar
Mynd / Daníel
Íslendingar unnu í kvöld nauman fjögurra marka sigur, 27-23 á Argentínu í handbolta í vináttuleik liðanna í Kaplakrika. Þrátt fyrir að hafa náð að sigra var sigurinn ekki vís fyrr en rétt undir lok leiks þrátt fyrir fjölda tækifæra til að gera út um leikinn.

Liðin spila tvo leiki á Íslandi, annar fór fram í dag og fer sá seinni fram á mánudag. Þetta eru seinustu leikir liðanna fyrir Ólympíuleikanna í London og var þetta mikilvægt fyrir Íslendinga til að afla meiri upplýsinga um lið Argentínumanna.

Gestirnir byrjuðu leikinn betur og komust í 4-1 eftir aðeins 6. mínútur en þá tók Íslenska liðið við sér og náði forskotinu. Það grundvallaðist á góðum varnarleik þar sem Argentínumenn skoruðu aðeins eitt mark á 11 mínútum og tóku Íslendingar því 16-13 forskot inn í hálfleik.

Argentínumenn með Fernando Garcia í markinu í fararbroddi hófu fljótlega að saxa á forskot Íslendinga í seinni hálfleik en náðu aldrei að jafna leikinn. Það var ekki fyrr en á 53. mínútu sem Íslendingar náðu aftur að slíta sig frá Argentínumönnum og komast aftur í fjögurra marka forystu sem þeir héldu svo út leikinn.

Varnarleikur Íslenska liðsins var flottur á köflum og Hreiðar Leví átti sterka innkomu af bekknum. Að fá á sig 23 mörk er ekki slæmt en ljóst er að íslenska landsliðið þarf að klára betur færi sín þegar komið er á Ólympíuleikanna.



Heiðar: Við eigum mikið inni„Þetta var allan tímann erfitt og ekkert frábær leikur hjá okkur. Við unnum allaveganna leikinn en við vitum að við eigum mikið inni," sagði Hreiðar Leví Guðmundsson, markmaður Íslands eftir leikinn.

„Það er auðvitað jákvætt að við sköpum okkur fullt af færum til að klára leikinn en við verðum að geta gert út um hann. Við verðum bara að klára færin á Ólympíuleikunum, það er mikilvægara en leikurinn hérna í kvöld."

Varnarleikur Íslands var flottur í kvöld en þeir hefðu þurft að gera fyrr út um leikinn sem kláraðist ekki fyrr en á loka mínútunum.

„Að fá á sig 23 mörk er ekki mikið, þeir spiluðu langar sóknir sem svæfðu okkur svolítið. Það er hinsvegar klárt að við vinnum flesta leiki ef við fáum aðeins 23 mörk í hverjum leik."

Leikirnir voru hluti af lokaundirbúningi Íslands fyrir Ólympíuleikanna sem hefjast í London í næstu viku.

„Maður finnur fyrir því að þetta er að nálgast, það er náttúrulega frábært að fá að taka þátt í svona. Það hefur verið mikil ákefð á æfingu strax frá því þegar við komum saman og við erum að verða tilbúnir."

Mótherjar Íslands eru með þeim í riðli á Ólympíuleikunum og var Hreiðar ánægður að fá smá hugmynd af liðinu.

„Það var ágætt að sjá hverjir þetta eru og hvað þeir geta."

Þegar Hreiðar var spurður hvort þessi leikur yrði skoðaður á Vídeófundi fyrir Ólympíuleikanna var hann viss á sínu máli.

„Ég get lofað þvi, oftar en einusinni," sagði Hreiðar.

Guðjón: Erum betra lið en þeir„Menn eru kannski ekkert rosalega ferskir, það er aðeins vika í mót og við erum búnir að vera að æfa á fullu. Við erum hinsvegar að koma upp úr því núna og verðum vonandi orðnir ferskari og skarpari í næstu viku," sagði Guðjón Valur Sigurðsson, hornamaður Íslands eftir leikinn.

„Menn finna að mótið er að nálgast og menn eru kannski ekki alveg að fórna sér jafn mikið síðasta meterinn eins og til þarf og mun verða á Ólympíuleikunum."

Guðjón var hinsvegar ánægður að fá að mæta liði sem var nokkuð óþekkt blað fyrir en er í riðli með Íslendingum á Ólympíuleikunum.

„Við vissum það sama og ekki neitt fyrir leikinn, við mætum þeim í fyrsta leik og því var mjög gott að fá að mæta þeim og taka aðeins í þá. Sjá hvað þeir hafa fram á að færa."

Leikurinn var í járnum lengst af og var það ekki fyrr en á 55. mínútu sem Íslendingar voru komnir með gott tak á leiknum.

„Menn voru nett á bremsunni vegna þess sem í húfi er. Þegar við mætum í fyrsta leikinn á Ólympíuleikunum verður þetta allt annað, ég er viss um það."

„Við vissum fyrirfram að við værum betri og að við myndum vinna leikinn og það er afar hættuleg hugsun sem gerði þeim kleift að hafa þetta svona tæpt. Við gerum meiri kröfur til okkar en þetta, núna vitum við við hverja við erum að fara að spila og getum nýtt okkur það."

Aðeins vika er í Ólympíuleikanna og eru þetta því síðustu metrar undirbúningsins.

„Ólympíuleikarnir eru auðvitað gríðarlega stórir en maður situr ekkert að horfa á klukkunna að bíða eftir að komast út. Það er einn leikur eftir á móti liði sem spilar öðruvísi en við eigum að venjast og vonandi getum við nýtt okkur lærdóm af þessu og spilað betur," sagði Guðjón.

Róbert: Enginn draumaleikur en þetta hafðist„Þetta var ekkert draumaleikur hjá okkur en þetta hafðist hérna í dag," sagði Róbert Gunnarsson, línumaður Íslands eftir leikinn.

„Þessir tveir leikir reynast okkur vonandi vel, leikurinn sem skiptir máli verður úti og við verðum að taka það góða úr þessum leik og bæta það slæma."

Íslendingar áttu í erfiðleikum að hrista af sér Argentínumenn sem voru inn í leiknum fram á síðustu mínútur.

„Vörnin og markvarslan hérna í seinni var mjög flott, Hreiðar stóð sig mjög vel. Hraðaupphlaupin komu en við þurfum einfaldlega að gera betur í færunum sem við fáum, sóknarleikurinn var svolítið stirður en það er fínt að fá þetta núna en ekki úti, þetta á eftir að lagast."

„Menn eru þreyttir og búnir að vera að æfa á fullu, það væri verra ef menn væru ekki að ná að skapa sér nein færi hér í kvöld."

Nú er innan við vika í að Ólympíuleikarnir hefjist og var Róbert fullur tilhlökkunar.

„Það eru allir fullir tilhlökkunar en við erum allir rólegir yfir þessu. Við erum að reyna að einbeita okkur að undirbúningi og að njóta tímans heima áður en leikarnir byrja," sagði Róbert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×