Handbolti

Þórir óánægður með gengi norska liðsins á ÓL

Stefán Hirst Friðriksson skrifar
Þórir stýrði norska liðinu til heimsmeistaratitils árið 2009.
Þórir stýrði norska liðinu til heimsmeistaratitils árið 2009.
Norska kvennalandsliðið sem leikur undir stjórn Íslendingsins, Þóris Hergeirssonar, olli töluverðum vonbrigðum í riðlakeppni Ólympíuleikanna í handknattleik. Liðið endaði í fjórða sæti riðilsins en komst þó áfram í 8-liða úrslitin þar sem þær mæta toppliði A-riðils, Brasilíu.

Einokun norska liðsins hefur verið mikil á undanförnum árum en liðið er ríkjandi Ólympíu-, heims- og Evrópumeistari og hefur því slakt gengi liðsins komið töluvert á óvart.

Liðið tapaði í gærkvöldi fyrir Spánverjum og var Þórir vægast sagt ósáttur með frammistöðu liðsins í leiknum í gær sem og í riðlakeppninni.

„Ég er ekki sáttur við frammistöðuna gegn Spánverjum og hreint út sagt ósáttur með okkar frammistöðu í riðlinum. Við vinnum leiki með því að leggja okkur fram en það virðist vanta hjá okkur og vantaði svo sannarlega gegn Spánverjum. Þetta var skref aftur á bak í okkar leik," sagði Þórir í samtali við VG eftir leik.

„Ég þarf að halda fund með leikmönnum liðsins og komast að því hvers vegna baráttan og leikgleðin er ekki til staðar hjá liðinu. Þetta er mjög ólíkt okkur en við virðumst ekki vera að gera þetta af fullum krafti," bætti Þórir við.

„Okkur tókst þó að ná inn í 8-liða úrslitin þrátt fyrir slaka frammistöðu en þetta er allt önnur keppni sem við erum að fara inn í núna. Það er allt opið ennþá en við þurfum að fara að ná einhverjum takti í okkar leik," sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins að lokum.

Átta liða úrslitin hefjast á morgun en þar mætast:

Brasilía - Noregur

Spánn - Króatía

Frakkland - Svartfjallaland

Rússland - Suður Kórea




Fleiri fréttir

Sjá meira


×