Íslenski boltinn

Hallgrímur þriðji leikmaðurinn sem boðar forföll í Færeyjaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallgrímur Jónasson í baráttu við Frakkann snjalla Frank Ribery.
Hallgrímur Jónasson í baráttu við Frakkann snjalla Frank Ribery. Mynd/AFP
Hallgrímur Jónasson varð í dag þriðji leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta sem dregur sig út úr landsliðshóp Lars Lagerbäck fyrir vináttulandsleik á móti Færeyjum á Laugardalsvellinum á miðvikudaginn kemur.

„Haddi, eins og hann er jafnan kallaður, hefur því miður ekki náð sér fyllilega af meiðslum sem hann hefur verið að stríða við," segir í frétt á heimasíðu KSÍ í dag. Lars Lagerbäck mun ekki kalla á nýjan leikmann í hópinn en áður höfðu þeir Björn Bergmann Sigurðarson og Sölvi Geir Ottesen dregið sig út úr hópnum vegna meiðsla.

Hallgrímur var ekki í upphaflega hópnum enda hefur hann glímt við meiðsli upp á síðkastið. Hann lék í 45 mínútur í síðasta leik með félagsliði sínu SönderjyskE og virtist vera klár í slaginn gegn Færeyjum sem varð til þess að Lagerbäck kallaði á hann.

Hallgrímur var hinsvegar ekki orðinn nógu góður og verður ekki með á móti færeyska liðinu í fyrsta heimaleik Lars Lagerbäck með íslenska landsliðið.

 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×