Körfubolti

Skipting í þjálfarateymi Peter Öqvist - Tómas inn fyrir Helga Jónas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tómas Holton
Tómas Holton Mynd/Valli
Tómas Holton, þjálfari sextán ára landsliðs stúlkna í körfubolta, verður aðstoðarmaður karlalandsliðsins í undankeppni Evrópumóts landsliða sem hefst í næstu viku. Þetta kemur fram á heimasíðu Körfuboltasambandsins.

Helgi Jónas Guðfinnsson hefur verið annar aðstoðarmanna Peter Öqvist síðan að Svíinn tók við fyrir rúmu ári síðan en Helgi Jónas þurfti að draga sig að mestu úr verkefninu vegna breytinga í vinnu. Fyrrum þjálfari Íslandsmeistara Grindavíkur verður þó liðinu og þjálfurum innan handar, meðal annars með styrktarþjálfun liðsins.

Pétur Már Sigurðsson, þjálfari nýliða KFÍ í Dominos-deildinni og Tómas Holton verða því við hlið Peter Öqvist í leikjunum tíu sem eru framundan á næstu fjórum vikum.

Það hefur líka orðið ein breyting á leikmannahópnum. Árni Ragnarsson, leikmaður Fjölnis, hefur dregið sig úr hópnum af persónulegum ástæðum og mun því ekki æfa meira með hópnum.

Leikmannahópur Íslands telur því tólf leikmenn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×